Ótrúlegu tímabili Meistaradeildar Líflands 2024 er nú lokið og hefur veturinn verið virkilega skemmtilegur og oft á tíðum alveg gríðarlega spennandi. Hestakosturinn hefur verið með glæsilegasta móti og knaparnir verið til fyrirmyndar innan vallar sem utan. Lokamót Meistaradeildarinnar var haldið í gær þegar keppt var í Tölti og Flugskeiði í gegnum höllina. Leikar fóru svo að Páll Bragi Hólmarsson og Vísir frá Kagaðarhóli sigruðu töltið eftir virkilega spennandi og flott A-úrslit. Næst var komið að Flugskeiðinu. Þar voru margir af fljótustu vekringum landsins skráðir til leiks og mátti búa sig undir að sjá á feikna fljóta spretti í gegnum höllina. En leikar fóru svo að Árni Björn Pálsson og Ögri frá Horni I fóru hraðast og sigruðu flugskeiðið nokkuð örugglega!
HÉR má sjá nánari niðurstöður úr töltinu. HÉR má nálgast nánari úrslit úr skeiðinu. Svo var komið að því sem allir höfðu beðið eftir - að telja stig kvöldsins og krýna sigahæsta einstaklinginn og sigahæsta lið Meistaradeildar Líflands 2024. Fyrir kvöldið leiddi Glódís Rún einstaklingskeppnina og lið Ganghesta/Margrétarhofs liðakeppnina. Eftir töltið hélt Glódís sinni forystu en lið Hestvits/Árbakka var komið á toppinn í liðakeppninni. Fyrir skeiðið mátti litlu muna milli efstu knapa og liða og ríkti gríðarlega spenna hverjir myndu standa uppi sem sigurvegarar! En leikar fóru svo að með sigri Árna Björns í flugskeiðinu fór hann úr fjórða sæti upp í það fyrsta og tryggði sér þar með sigurinn í einstaklingskeppni Meistaradeildar Líflands 2024! Liðakeppnin fór svo að eftir liðasigur í Flugskeiðinu gulltryggði lið Hestvits/Árbakka stöðu sína á toppnum og eru því sigurvegarar í liðakeppni Meistaradeildar Líflands 2024! Stjórn Meistaradeildarinnar vill óska knöpum innilega til hamingju með sinn árangur í deildinni í vetur. Við erum gríðarlega ánægð með samvinnuna við knapa og liðseigendur og viljum þakka öllum þeim sem komu að deildinni á einn eða annan hátt. Styrktaraðilar, samstarfsaðilar, sjálfboðaliðar, knapar og liðseigendur, takk fyrir samstarfið í Meistaradeild Líflands 2024! |
|