Fjórða mót Meistaradeildar Líflands fór fram í kvöld þegar keppt var í gæðingalist í HorseDay Höllinni á Ingólfshvoli. Það var ljóst fyrir kvöldið að áhorfendur máttu búast við frábærum sýningum og HorseDay höllin þétt setin og höfum við aldrei séð jafn marga á pöllunum í þessari grein. Fjórir villikettir voru skráðir til leiks og ríkti mikil eftirvænting fyrir því hverjir þeir væru. Af þeim reið á vaðið reynsluboltinn Gísli Gíslason á Trymbli frá Stóra-Ási fyrir Þjóðólfshaga/Sumarliðabæ með frábærri sýningu eins og við var að búast af þeim félögum og hafa sýnt okkur svo oft áður. Eins mætti Ólafur Andri Guðmundsson fyrir lið Storm Rider/Austurkot með glæsihryssuna Dröfn frá Feti. Þriðji villiköttur kvöldsins mætti með hreint út sagt ótrúlega sýningu og mátti heyra saumnál detta hér í HorseDay höllinni á meðan á sýningu þeirra Olil Amble og Glampa frá Ketilsstöðum stóð. Virkilega glæsileg og vel útfærð sýning hjá þeim og skutu þau sér beint á toppinn og leiddu forkeppnina allt til enda. Þau kepptu í kvöld fyrir lið Hjarðartúns. Fjórði villiköttur kvöldsins var Fredrika Fagerlund og Stormur frá Ystafelli en þau sigruðu KS-deildina fyrir norðan nú fyrr í vetur og tryggðu sér sæti í úrslitum hér í Meistaradeild Líflands. Þó það hafi verið spennandi að fá alla þessa villiketti með í kvöld voru virkilega glæsilegar sýningar sem mátti sjá í forkeppninni. Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir og Flóvent frá Breiðstöðum riðu glæsilega sýningu og tryggðu sér öruggt sæti í úrslitum og voru önnur inn í úrslit á eftir Olil og Glampa. Ragnhildur Haraldsdóttir og Úlfur frá Mosfellsbæ voru glæsileg og voru þriðju inn í úrslit. Jöfn í 4.-6. sæti voru Fredrica Fagerlund og Stormur frá Ystafelli, Jakob Svavar Sigurðsson og Skarpur frá Kýrholti ásamt Söru Sigurbjörnsdóttur og Flóka frá Oddhóli. Eftir úrslitin breyttust leikar þannig að í 6. sæti höfnuðu Sara Sigurbjörnsdóttir og Flóki frá Oddhóli með 7.87, Ragnhildur Haraldsdóttir og Úlfur frá Mosfellsbæ í 5. sæti með 7.87, Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir og Flóvent frá Breiðstöðum í 4. sæti með 8.10 Fredrica Fagerlund og Stormur frá Ystafelli í 3. sæti með 8.23 og Jakob Svavar Sigurðsson og Skarpur frá Kýrholti í 2. sæti með 8.33. Það var því Olil Amble og Glampi frá Ketilsstöðum sem eru sigurvegarar gæðingalistar 2023 og sigruðu þau nokkuð örugglega og eru án efa stjörnur kvöldsins Liðakeppni kvöldsins fór þannig að liðaplattinn fór til liðs Hjarðartúns en þau hlutu 61 stig kvöld. Það voru þau Olil Amble, Jakob Svavar og Helga Una sem kepptu fyrir þeirra hönd. Efst stendur þó lið Ganghesta/Margrétarhofs með 200.5 stig, Auðsholtshjáleiga/Horseexport í 2. sæti með 186 stig og Hjarðartún í 3. sæti með 173.5 stig. Aðalheiður Anna leiðir enn einstaklingskeppnina með 31 stig. Í öðru sæti er Sara Sigurbjörnsdóttir með 24 stig og Ásmundur Ernir Snorrason skaust upp í þriðja sætið og er með 15 stig.
Við í stjórn meistaradeildar viljum þakka frábært kvöld og óskum knöpum til hamingju með árangurinn. Sjáumst næst eftir rúmar 2 vikur laugardaginn 8. apríl á Brávöllum á Selfossi þegar keppt verður í gæðingaskeiði og 150m skeiði. Sjáumst á Selfossi! Stjórn Meistaradeildar Líflands. |
|