Keppni í fimmgangi F1 í Meistaradeild Líflands í hestaíþróttum fór fram í HorseDay höllinni Ingólfshvoli í kvöld, 3. mars. Margir sterkir hestar voru skráðir til leiks í bland við úrval ungra hesta. Forkeppnin var hörkuspennandi allt til enda. Það var ljóst að ekki er bara vor í lofti heldur voru hestarnir mættir til leiks í frábæru standi og gáfu ekkert eftir þó stutt sé liðið á tímabilið. Þorgeir Ólafsson og Goðasteinn frá Haukagili mættu fyrstir í braut með frábæra sýningu og settu línuna fyrir kvöldið og leiddu lengi vel. Uppboðsknapi kvöldsins Ragnar Stefánsson á Mánadísi frá Litla-Dal átti flotta sýningu og voru lengi vel meðal efstu knapa. Mikil vonbrigði þóttu þegar sigurvegararnir frá því í fyrra Árni Björn Pálsson og Katla frá Hemlu II fipuðust á seinni skeiðsprettinum eftir annars frábæra sýningu og ljóst að þau voru ekki að fara skipa sér í sess meðal efstu hesta. Íslandsmeistararnir frá því í fyrra Sara Sigurbjörnsdóttir og Flóki frá Oddhóli áttu virkilega flotta sýningu og stóðu efst að lokinni forkeppni. Í öðru sæti inn í úrslit var Ásmundur Ernir Snorrason og Ás frá Strandarhöfði. Í þriðja sæti voru Viðar Ingólfsson og Eldur frá Mið-Fossum. Jöfn í því fjórða voru þrír knapar; Þorgeir Ólafsson og Goðasteinn frá Haukagili, Teitur Árnason og Nóta frá Flugumýri II ásamt Glódísi Rún Sigurðardóttur og Sölku frá Efri-Brú. Keppni í A úrslitum var gríðarlega jöfn og spennandi og ekki skemmdi fyrir þétt setin stúka af áhorfendum og stemningin var vægast sagt frábær. Eftir töltið leiddu Viðar og Eldur nokkuð örugglega með 8.67 í einkunn en eftir fetið voru það Glódís og Salka sem tóku forystuna sem þau héldu fram að skeiðinu en eftir frábæra spretti á skeiði voru það Sara og Flóki sem stóðu uppi sem sigurvegarar í fimmgangi Meistaradeildar Líflands 2023! Í öðru sæti voru þau Glódís og Salka, í þriðja Þorgeir og Goðasteinn, í fjórða Ásmundur og Ás, Teitur og Flauta í því fimmta og Viðar og Eldur í því sjötta. Virkilega spennandi og skemmtileg keppni hér í HorseDay höllinni í kvöld og Sara Sigurbjörnsdóttir er vel að sigrinum komin með jafna og góða sýningu á öllum gangtegundum ásamt framúrskarandi skeiðsprettum. Það var lið Auðsholtshjáleigu sem hlaut liðaplattann í kvöld með 54 stig en liðið var með tvo knapa í A-úrslitum, sigurvegarann Söru Sigurbjörnsdóttur og Ásmund Erni Snorrason sem hafnaði í fjórða sæti. Þórdís Erla Gunnarsdóttir keppti einnig fyrir þeirra hönd og hafnaði í 17. sæti á Viljari frá Auðsholtshjáleigu/Horseexport. Þau eru nú í öðru sæti liðakepninnar en lið Ganghesta/Margrétarhofs leiða með 150.5 stig. Í þriðja sæti er Hestvit/Árbakki með 117 stig. Efst í einstaklingskeppninni er enn þá Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir þó svo hún sé án stiga í kvöld en er með 24 stig. Sara Sigurbjörnsdóttir skaust upp í annað sætið og er nú með 20 stig og Glódís í því þriðja með 14 stig. Öll úrslit stigakeppninnar má nálgast hér.
Við í stjórn meistaradeildar viljum þakka frábært kvöld og óskum knöpum til hamingju með árangurinn. Sjáumst næst eftir 3 vikur 23. mars í HorseDay höllinni Ingólfshvoli þegar keppt verður í Gæðingalist. Í fyrra voru það Teitur Árnason á Takti frá Vakurstöðum sem sigruðu. Við hlökkum til að sjá ykkur þá. Stjórn Meistaradeildar Líflands. |
|