Nú er komið að lokamóti Meistaradeildar Líflands! Það verður haldið föstudaginn 14. apríl næstkomandi í HorseDay höllinni, Ingólfshvoli, og keppt verður í tölti og flugskeiði í gegnum höllina. Einnig mun koma í ljós hverjir standa uppi sem sigurvegarar Meistaradeildar Líflands 2023. Það má svo sannarlega segja að það stefnir í gríðarlega sterkt og spennandi lokakvöld því breiddin hefur sjaldan verið meiri eins og nú í vetur. Einstaklingskeppnin er galopin og geta nokkrir knapar gert sig líklega að sigri - en allt þarf að ganga upp! Aðeins 17 stig skilja svo að 1. og 4. sæti í liðakeppninni og munu þessi lið klárlega tefla fram sínum allra besta hestakosti til að eiga möguleika á að sigra liðakeppnina.
Í fyrra var það Jóhanna Margrét Snorradóttir og Bárður frá Melabergi sem sigruðu töltið og Konráð Valur Sveinsson og Kjarkur frá Árbæjarhjáleigu unnu skeiðið. Eftir spennandi keppni í stigasöfnuninni yfir veturinn var það Árni Björn Pálsson sem sigraði að lokum einstaklingskeppnina 2022 og lið hans Top Reiter sigraði liðakeppnina. Munu Árni og lið hans Top Reiter endurtaka leikinn eða erum við að fara sjá aðra stíga á pallinn á föstudaginn? En eins og staðan er núna er það lið Hjarðartúns sem leiðir og Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir leiðir einstaklingskeppnina. Við getum að minnsta kosti búið okkur undir virkilega spennandi og skemmtilegt kvöld - fljótustu verkringar landsins munu þjóta gegnum húsið ásamt því að bestu tölthestar landsins munu leika listir sínar! Að þessu sinni er það Lífland sem býður áhorfendum í höllina. Eins og áður verða frábærar veitingar í boði fyrir áhorfendur í HorseDay höllinni og er þeim bent á að panta mat á [email protected] og fá þá í kaupbæti frátekið sæti á besta stað í stúkunni - opnað verður í matinn kl 16:30 - fyrstir panta fyrstir fá ! Látið þetta ekki fram hjá ykkur fara. Stjórn Meistaradeildar Líflands. |
|