Nú er komið að lokamót Meistaradeildar Líflands sem fer fram föstudaginn 12. apríl næstkomandi í HorseDay höllinni Ingólfshvoli. Keppt verður í Tölti T1 og Flugskeiði í gegnum höllina ásamt því að í ljós kemur hverjir standa uppi sem sigurvegarar Meistaradeildarinnar 2024. Það er óhætt að segja að virkilega spennandi og hörð keppni sé framundan bæði í tölti og skeiði en ekki síður í stigakeppninni. Mjög mjótt er á milli efstu sæta bæði í einstaklings- og liðakeppninni og úrslitin að öllu óráðin. Lífland mun bjóða áhorfendum frítt í höllina og að vanda verða frábærar veitingar í boði fyrir áhorfendur í HorseDay höllinni á vegum Veisluþjónustu Suðurlands. Ef pantað er fyrir fram er í kaupbæti frátekið sæti í stúkunni. Tryggið ykkur miða HÉR því ekki er víst að allir komist að sem vilja. Húsið opnar klukkan 17:00 og hefst keppni stundvíslega klukkan 19:00! Nánari upplýsingar um veitingarnar má nálgast á [email protected]. Þeir sem ekki komast þá að sjálfsögðu mælum við með að tryggja sér áskrift hjá ALENDIS og fylgist með í beinni útsendingu. Glódís Rún Sigurðardóttir leiðir einstaklingskeppnina með 34.5 stig en mikil spenna ríkir milli efstu knapa og nóg eftir af stigum í pottinum. Hún hefur haldið öruggri forystu í allan vetur og megum við búast við því að hún mæti vel undirbúin til leiks og stefni á ekkert nema sigur. Það eru þó nokkrir knapar sem enn geta gert atlögu að sigri og má búast við að þeir leggi allt í sínar sýningar til að ná toppsætinu. Staðan í einstaklingskeppni 1 Glódís Rún Sigurðardóttir 34.5 2 Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir 30 3 Jakob Svavar Sigurðsson 30 4 Gústaf Ásgeir Hinriksson 22.75 5 Árni Björn Pálsson 21 Það er svo lið Ganghesta/Margrétarhofs sem leiðir liðakeppnina með 239 stig en rétt á hæla þeirra eru lið Hestvits/Árbakka og Top Reiter sem eiga meðal annars möguleika á að sigra Meistaradeildina 2024. Staðan í liðakeppninni 1 Ganghestar / Margrétarhof 239 2 Hestvit / Árbakki 234.5 3 Top Reiter 215.5 4 Hjarðartún 206 5 Þjóðólfshagi / Sumarliðabær 168 6 Hrímnir / Hest.is 166 7 Austurkot / Pula 156 Í fyrra voru það Árni Björn Pálsson og Kastanía frá Kvistum sem sigruðu töltið en Konráð Valur Sveinsson og Kjarkur frá Árbæjarhjáleigu II sigruðu flugskeiðið. Munu þau mæta aftur til leiks og endurheimta sigurinn? Það kemur allt í ljós á föstudaginn! Þetta vill enginn láta framhjá sér fara!
|
|