Ótrúlegu tímabili Meistaradeildar Líflands er nú lokið og hefur keppnin verið æsispennandi nú í vetur og var ekki neitt öðruvísi uppi á teningnum í kvöld. Eftir úrslit í tölti var ljóst að baráttan yrði á milli Aðalheiðar Önnu og Árna Björns í einstaklingskeppninni. Árni Björn var einu stigi á undan eftir töltið og ljóst að úrslit myndu ráðast í skeiðinu. Til að sigra einstaklinskeppnina þurfti annað þeirra einfaldlega að fara hraðar í gegnum höllina. Hið ólíklega átti sér stað! Þau fóru á sama tíma eða 5.66 sek. í gegnum höllina. En þar sem Aðalheiður átti betri annan tíma hlaut hún 3. sætið í skeiðinu og Árni 4. sætið. Þá voru þau orðin jöfn að stigum í efsta sæti með 39 stig. En þar sem Aðalheiður hefur verið oftar á palli í vetur sigrar hún einstaklingskeppni Meistaradeildar Líflands 2023. Það var svo Konráð Valur Sveinsson sem lenti í 3. sæti með 32 stig. Liðakeppnin var ekki síður spennandi. Lið Hjarðartúns leiddi keppnina fyrir skeiðið en það var lið Top Reiter sem sigraði liðakeppnina nokkuð örugglega í skeiðinu og náði með því að vera efst að stigum en jöfn liði Hjarðartúns með 366. Þannig að eins og í einstaklingskeppninni voru leikar jafnir og horfa þurfti til sigra liðanna í vetur. Það var því lið Top Reiter sem sigrar liðakeppni Meistaradeildar Líflands 2023. Nánari úrslit stigakeppninnar má nálganst HÉR. Stjórn Meistaradeildar Líflands óskar sigurvegurum og öðrum keppendum til hamingju með árangurinn og hlökkum til næsta tímabils.
|
|